Hversu mikil hreyfing?
Mikilvægast er takmarka þann tíma sem varið er í kyrrsetu og stunda sem fjölbreyttasta hreyfingu í samræmi við getu og áhuga hvers og eins.
Börn og unglingar
Minnst 60 mínútna miðlungserfið eða erfið hreyfing* daglega.
Heildartímanum má skipta upp í styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.
Hreyfingin ætti að vera eins fjölbreytt og mögulegt er til að efla sem flesta þætti líkamshreysti s.s. þol, vöðvastyrk og liðleika. Kröftug hreyfing sem reynir á beinin er sérstaklega mikilvæg fyrir beinmyndun og beinþéttni.
Takmarka ætti afþreyingu við skjá, svo sem tölvu eða sjónvarp, við 2 klukkustundir á dag.
Fullorðnir
Minnst 30 mínútna miðlungserfið hreyfing* daglega.
Heildartímanum má skipta upp í styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.
Með því að hreyfa sig lengur eða með meiri ákefð má bæta heilsuna enn frekar en álagið verður þó ávallt að miðast við getu hvers og eins. Til viðbótar er því æskilegt að fullorðnir stundi erfiða hreyfingu* að minnsta kosti 2 sinnum í viku (um 20-30 mínútur í senn).
Roskið fólk
Minnst 30 mínútna miðlungserfið hreyfing* daglega.
Heildartímanum má skipta upp í styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.
Með því að hreyfa sig lengur eða með meiri ákefð má bæta heilsuna enn frekar en álagið verður þó ávallt að miðast við getu hvers og eins. Til viðbótar er því æskilegt að roskið fólk stundi erfiða hreyfingu* að minnsta kosti 2 sinnum í viku (um 20-30 mínútur í senn).
Styrkþjálfun er sérstaklega gagnleg rosknu fólki, meðal annars til að viðhalda hreyfifærni og stuðla að auknu gönguöryggi.
Meðganga
Í samræmi við ráðleggingar fyrir fullorðna ættu þungaðar konur að stunda miðlungserfiða hreyfingu* í minnst 30 mínútur daglega.
Heildartímanum má skipta upp í styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.
Þungaðar konur sem eru vanar reglulegri þjálfun, ættu að geta haldið áfram að stunda þjálfun við hæfi svo framarlega sem þær ofreyna sig ekki og hlusta á líkamann. Markiðið ætti að vera að viðhalda styrk og getu en ekki bæta við hana.
Þjálfun grindarbotnsvöðva er sérstaklega mikilvæg á meðgöngu og eftir fæðingu.
* Miðlungserfið hreyfing er hreyfing sem krefst þrisvar til sex sinnum meiri orkunotkunar en hvíld. Við miðlungserfiða hreyfingu verða hjartsláttur og öndun heldur hraðari en venjulega en hægt er að halda uppi samræðum. Dæmi um miðlungserfiða hreyfingu eru rösk ganga, garðvinna, heimilisþrif og að hjóla, synda eða skokka rólega.
* Erfið hreyfing er hreyfing sem krefst meira en sex sinnum meiri orkunotkunar en hvíld. Erfið hreyfing kallar fram svita og mæði þannig að erfitt er að halda uppi samræðum. Dæmi um erfiða hreyfingu eru rösk fjallganga, snjómokstur, hlaup og flestar íþróttir og önnur þjálfun sem stunduð er með árangur í huga.
Mikilvægt er að hafa hugfast að mismunandi líkamsástand fólks þýðir að það sem reynist einum miðlungserfið hreyfing getur reynst öðrum erfið hreyfing og öfugt.
Heimild:
Lýðheilsustöð. (2008). Ráðleggingar um hreyfingu.