Hvernig er staðan í dag?
Gagnlegt er að leita svara við eftirfarandi spurningum:
1. Hvernig ferðast ég á milli staða?
Með einkabíl, strætó, hjólandi eða gangandi? Gæti ég með betra skipulagi gengið, hjólað eða nýtt almenningssamgöngur suma eða alla daga? Legg ég eins nálægt áfangastað og mögulegt er eða vel ég stæði sem er lengra í burtu? Get ég farið fyrr út úr strætó og gengið aðeins lengri leið á áfangastað?
Ef við á: Hvernig fara börnin í skólann?
2. Hversu mikið hreyfi ég mig í tengslum við mín daglegu störf s.s. vinnu eða skóla?
Nota ég stigann eða verður lyftan fyrir valinu? Nota ég alltaf rafrænar leiðir til að eiga samskipti við aðra í stað þess að standa reglulega upp, teygja úr mér og bera erindið upp í eigin persónu? Hvað geri ég í hádeginu og öðrum hléum? Ýtir klæðnaður minn undir hreyfingu, eru t.d. skórnir þægilegir og hentugir til göngu?
3. Hversu mikið hreyfi ég mig í frítímanum?
Hvað fer mikill tími daglega í afþreyingu við skjá s.s. tölvu eða sjónvarp? Hvernig nýti ég tækifæri sem bjóðast í mínu nánasta umhverfi til útivistar og annarrar heilsuræktar, svo sem göngustíga, útivistarsvæði, þjónustu íþróttafélaga og heilsuræktarstöðva? Ef við á: Hreyfir fjölskyldan sig saman?
Auk þess að meta hreyfivenjur er einnig mikilvægt að skoða mataræði og svefnvenjur.
Hreyfing veitir vellíðan, eflir styrk, losar um streitu og stuðlar að betri svefni.
Takmarkaður nætursvefn, næringarsnauður matur og óreglulegar máltíðir draga hins vegar úr orku og þar með lönguninni til að hreyfa sig.