Hvað er hreyfing?
Hreyfing er almennt skilgreind sem hvers konar vinna beinagrindarvöðva sem eykur orkunotkun umfram það sem gerist í hvíld.
Hreyfing er þannig yfirgripsmikið hugtak sem nær yfir nánast allar athafnir sem fela í sér hreyfingu með einum eða öðrum hætti, t.d. að ferðast á milli staða gangandi eða á hjóli, heimilisstörf, garðvinnu, ýmiss konar leiki, íþróttir og aðra skipulagða þjálfun.
Hreyfingu má einnig skilgreina út frá fjórum meginþáttum:
Ákefð (hve erfitt)
Tíma (hve lengi)
Tíðni (hve oft)
Tegund (hvers konar hreyfing)
Samanber skilgreiningu hreyfingar eru möguleikarnir nær óendanlegir og allir ættu að geta fundið sína leið til að stunda hreyfingu við hæfi.
Þjálfun er skipulögð, markviss og endurtekin hreyfing sem ætlað er að bæta eða viðhalda einum eða fleiri þáttum líkamshreysti s.s. þoli, styrk, liðleika og samhæfingu.