Hreyfiseðill
Samkvæmt vísindalegum rannsóknum hefur hreyfing jákvæð áhrif á hina ýmsu sjúkdóma. Heyfiseðill byggir á því að læknir metur einkenni og ástand einstaklings og ávísar síðan hreyfingu sem meðferð eða hluta af meðferð við þeim sjúkdómum eða sjúkdómseinkennum sem verið er að fást við. Í kjölfar matsins vísar læknir einstaklingnum áfram til samhæfingaraðila (sjúkraþjálfara) sem hittir hann á hans heilsugæslustöð. Í komunni til samhæfingaraðilans eru möguleikar og geta til hreyfingar ræddir og metnir í samráði við einstaklinginn. Sett eru fram markmið og útbúin hreyfiáætlun sem byggir á fagþekkingu. Eftirfylgnin á hreyfiseðlinum er síðan í höndum samhæfingaraðila og læknis. Samhæfingaraðilinn fylgist reglulega með framvindu og gangi mála hjá einstaklingnum og læknirinn ákveður endurkomu til sín við útgáfu hreyfiseðilsins (sjá mynd, Hreyfiseðill - ferlið).
Ýmislegt hefur verið gert til að vinna að innleiðingu hreyfiseðils á Íslandi í gegnum árin. Nú stendur yfir tveggja ára tilraunaverkefni sem SÍBS hefur forgöngu um og er styrkt af Velferðarráðuneytinu. Á tímabilinu er áætlað Hreyfiseðillinn verði raunhæfur valkostur í heilbrigðiskerfinu á öllu höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en í framtíðinni er gert ráð fyrir að úrræðið verði í boði á öllum heilsugæslustöðvum á landinu.
Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu Hreyfiseðils.
Hreyfitorgi er meðal annars ætlað samhæfingaraðilum til að finna hreyfingu við hæfi hverju sinni.
Hreyfiseðill - ferlið